Alþjóðlegt töffness

Við hlæjum að bröndurum sem enginn skilur, við tölum hærra en heilt fuglabjarg og við þorum að viðurkenna að við erum ekkert svo kúl. Sem auðvitað gerir okkur ofurkúl

laugardagur, september 25

Tjellingarnar.blogspot.com

Loksins, loksins er ný síða fædd. Eftir frekar brösuga meik-óver tilraun í sumar gafst ég eiginlega bara upp á þessu apparati. Áhuginn virtist heldur ekki mikill þannig að ég sá ekki tilgang í að vera eitthvað að breinstorma um nýtt lúkk ef enginn ætlaði að nýta sér þessa agalega fínu síðu. Svo kom Gebba litla Spears að máli við mig og spurði hvort við ættum ekki endurvekja deitið gamla undir nýjum formerkjum og þar sem ég var nýbúin að tilkynna dauða míns eigins bloggs, með tárum, stóðst ég ekki freistinguna. Til þess að gera langa sögu stutta, þá eru tjellingarnar núna fæddar.

Jeminn eini hvað það er agalega óvandað og enskuskotið mál í þessari fyrstu málsgrein. Hlíbbið verður ekki ánægt með þetta.

Af mér er annars það helst að frétta að ég er flutt (enn einu sinni) í nýtt húsnæði. Ég er strax búin að eignast nýja vinkonu og verðum við æ nánari með hverjum deginum sem líður. Hún býr með mér í húsinu, nánar tiltekið í glugganum mínum, en hún er RISAVAXIN gul köngulló. Ég hef ákveðið að kalla hana Beggu. Begga er sjálfri sér næg og truflar engan. Ég horfði á hana veiða sér fiðrildi til matar í fyrradag og stóð svo dolfallin á meðan Begga rúllaði fiðrildinu eins rúllubagga sem hún síðan geymdi í vefnum sínum. Ég var svolítið hrædd við hana til að byrja með en ákvað eftir fiðrildið að kannski væri bara ágætt að leyfa henni að búa í glugganum mínum því hún héldi þá kannski öðrum skorkvikindum í skefjum.

Ég fjárfesti í forláta örbylgjuofni fyrir nýja heimilið mitt og var ég ekkert smá ánægð með kaupin. Bikarsvartur stafrænn gæðingur með grilli og öllum græjum. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég eignaðist aur aflögu var að kaupa mér örbylgjupoppkorn til þess að poppa í nýja ofninum. Í gær fékk ég svo Amerískan gest í heimsókn sem horfði á Ameríska Böku í imbanum hjá mér. Fannst mér þetta kjörið tækifæri til þess að frumsýna gripinn og skellti ég poka af poppsecret í ofninn. Þvílík og önnur eins vonbrigði. Fyrst setti ég pokann á 4 mínútna afþýðingu en þegar ég loks áttaði mig á því að þessum fjórum mínútum loknum ákvað ég að setja bara pokann á fullan kraft í þrjár. Ameríski gesturinn benti mér á áður en tímanum var lokið að það væri farið að rjúka ótæpilega úr bikarsvarta gæðingnum og fóru brunarústirnar beint í ruslið. Ég dó ekki ráðalaus og hugðist sýna Ameríska gestinum og örbylgjuofninum að ég væri fullfær um að poppa og henti öðrum poka inn, stillti á þrjár og hálfa í þetta skiptið og beið átekta. Ég beið og ég beið og tíminn var næstum búinn en ekkert gerðist. Ekkert popp, ekkert plopp, ekkert. Ég borðaði þessi þrjú popp sem poppuðust og restin lenti í ruslinu. Er ég ekki að vinna í raftækjaverslun? Var ég ekki að vinna í heimilistækjadeildinni í téðri raftækjaverslun? Einmitt þeirri sömu og selur örbylgjuofna? Ég er ömurlegur poppari.

Allavega, til hamingju tjellingar með nýja síðu, verið nú duglegar að blogga!

2 Comments:

 • At 6:06 e.h., Anonymous Nafnlaus said…

  Ég er aldrei ósátt við það að fólk tali "vont" mál. Þetta "vonda" mál gefur einmitt til kynna hvernig málið er í raun og veru. Mér finnst það því alls ekki slæmt, kannski bara athyglisvert.
  Das Hlíbbz

   
 • At 2:30 e.h., Blogger Miss Eydís said…

  ooohh... flotta sida. Nu er um ad gera ad vera duglegar ad blogga um daginn og veginn.... kvedja, Thynnkudyrid

   

Skrifa ummæli

<< Home